Bebras áskorunin - Ísland

 
 

Um Bebras

 

Bebras (e. Beaver) áskorunin er alþjóðlegt verkefni til að auka áhuga á upplýsingatækni og efla tölvunarhugsun (e. Computational thinking) meðal nemenda á öllum skólastigum. Áskorunin fer fram samtímis í mörgum löndum í nóvember ár hvert.  Bebras er í boði bæði á íslensku og ensku og tilvalið tækifæri til að leyfa nemendum að glíma við skemmtileg verkefni sem henta hverjum aldri. Í áskoruninni leysa þátttakendur þrautir byggðar á hugsunarhætti forritunar. Bebras er ein fjölmennasta áskorunin sem notuð er til kennslu í upplýsingatækni í heiminum og var haldin í fyrsta sinn á Íslandi í nóvember 2015. 

Hvað er Bebras?
Bebras var upphaflega stofnað af Prófessor Valentina Dagiene hjá Háskólanum í Vilnius, en Bebras (e. Beaver) er heitið á dýrinu Bifur á litháísku. Hún fékk hugmyndina þegar hún var að ferðast um Finnland árið 2003 og hugmyndinni er ætlað að vekja áhuga nemenda á því að kynnast upplýsingatækni. Hún ákvað að nýta bifurinn sem ímynd áskoruninnar vegna þess dugnaðar og fullkomnunaráráttu sem hann virðist búa yfir. Bifurinn eru duglegt, iðið og gáfað dýr sem vinnur stöðugt í stíflunum sínum til að gera þær betri og stærri. Til gamans má benda á að nóg efni er til á Youtube ef áhugi er fyrir að skoða hvernig bifurinn vinnur - kannski áhugavert þar sem dýrið finnst ekki á Íslandi og þekkja krakkar því ekki dýrið vel.

Fyrsta Bebras áskorunin fór fram í Litháen árið 2004 og hefur vaxið gríðarlega frá þeim tíma og var með yfir 500.000 þátttakendur árið 2012. Bebras er ein fjölmennasta áskorun sem notuð er til kennslu í upplýsingatækni

Eitt af markmiðum Valentinu Dagiene var að gera Bebras að alþjóðlegu átaki í fræðslu um upplýsingatækni í skólum. Fjöldi Evrópulanda hafa bæst í hópinn en Eistland, Þýskaland, Holland og Pólland voru fyrst til að bætast í hópinn árið 2006. Árið 2008 bættust Austurríki, Lettland og Slóvakía í hópinn. Árið 2009 hélt Ítalía fyrstu innanlandskeppnina sína og Finnland og Sviss gerðu það sama 2010. Frakkland, Ungverjaland og Slóvenía bættust í hópinn árið 2011 ásamt því að Japan var fyrsta landið utan Evrópu til að halda innanlands Bebras áskorun. Sama ár gerðu Belgía, Canada, Kýpur, Ísrael og Spánn prufuáskoranir fyrir nemendur sinna landa. Árið 2012 bættust síðan Búlgaría, Svíþjóð og Taivan í hópinn. Árið 2015 tók Ísland þátt í fyrsta skipti og hafa fjölmörg lönd bæst við síðan þá.

Nánari upplýsingar um Bebras má finna á www.bebras.org 

Ský er í forsvari fyrir Bebras á Íslandi og hægt að fá nánari upplýsingar í gegnum sky@sky.is